Greinar, viðtöl

SKOÐUN

Menning valdsins

Þuríður Ólafía Hjálmtýsdóttir

Fréttablaðið Fimmtudagur 3. febrúar 2022

Skilningur á lífinu og því hvað sé mikilvægt, mótast af því samfélagi sem við lifum í. Við erum þátttakendur í menningu okkar frá vöggu til grafar. Við berum með okkur þá menningu sem við erum innlimuð í og hugsum og bregðumst við í samræmi við hana. Við erum þó ekki endilega meðvituð um hana. Í heiminum í dag er hlutgerving á fólki rík. Fólk horfir í ríkum mæli á hvert annað utan frá, sem aðskilið hvert frá öðru. Þetta veldur tengslaleysi sem leiðir til einmanaleika og minni hluttekningar manna á milli. Konur hafa ekki farið varhluta af þessu. Þær eru skoðaðar utan frá, sem hlutir og „fegurð“ þeirra talin skipta miklu. Fegurð kvenna í vestrænum samfélögum er álitin felast í því að þær séu ungar, grannar og með stinn brjóst. Slík er staðalímynd hinnar fullkomnu konu og því betur sem hún uppfyllir þessa ímynd, því flottari er hún talin og hamingjusamari. Öll viljum við vera vel heppnuð, flott og hamingjusöm.

Á bak við þetta áhorf á konur liggja gífurlega sterk og grimm öfl markaðarins og feðraveldisins. Fjármálaleg öfl, þar sem fjöldi manns hefur atvinnu af því að halda á lofti þessari ímynd og fyrirtæki stórgræða. Þá burðast feðraveldið með vald sem enginn ræður við, því valdið spillir. Valdið sem slíkt getur orsakað ótta og sársauka hver sem á heldur. Sársauka, ekki einungis hjá þeim sem fyrir verður, heldur einnig þeim sem á heldur. Sannast margkveðin vísa undanfarinnar tíðar: „Við erum saman í þessu.“

Hvernig getum við byggt upp samfélag sem er vinsamlegra þeim lífrænu, mannlegu verum sem við erum? Hvernig samfélag viljum við byggja, þannig að við þurfum ekki að auka þjáninguna á vegferð okkar um lífið?

Heimur okkar allra er að hluta til tengdur og að hluta til aðskilinn. Ekkert okkar getur unnið að því sem við höldum okkar hagsmuni, á hverjum tíma, án tengsla við hina sem í samfélaginu búa. Þannig verður sú/sá sem fyrir valdinu verður og sú/sá sem beitir því, fremur tengd en aðskilin. Allt samfélagið verður fyrir áhrifum. Vandinn er samfélagslegs eðlis vegna viðhorfa í menningu okkar, en síður bundinn við þá einstaklinga sem hlut eiga að máli. Við sem byggjum þessa jörð berum ábyrgð á því mannlífi sem hér blómstrar, eða þeirri þjáningu sem verður.

https://www.frettabladid.is/skodun/menning-valdsins/

Eflum samskipti og líkamlega og andlega heilsu

Viðfangsefni sálfræðiþjónustunnar Sálarró.is eru áfallastreita, sorg, kvíði, þunglyndi, erfið tengsl og samskipti. Í næsta mánuði býður stofan upp á tvö afar áhugaverð tilboð.

Þuríður Ólafía Hjálmtýsdóttir er sérfræðingur í klínískri fjölskyldusálfræði og stofnandi sálfræðiþjónustunnar Sálarró.is. Viðfangsefni Sálarró.is eru áfallastreita, sorg, kvíði, þunglyndi, erfið tengsl og samskipti að sögn Þuríðar Ólafíu. „Fyrirtækið býður upp á námskeið, hópmeðferðir og viðtöl sem veita tækifæri til að efla líkamlega og andlega heilsu og samskipti. Til þess að vinna að ásetningi okkar erum við nú í vor með tvenns konar tilboð sem nafnast Viltu vaxa eftir áföll? og Töframáttur samtalsins.“

Viltu vaxa eftir áföll?

Annars vegar býður Sálarró upp á hagnýta sál-líkamlega meðferð, sem ber heitið Viltu vaxa eftir áföll?, í litlum sjálfsþroskahópi til þess að vinna með eigin áfallareynslu. „Í meðferðinn er farið í gegn um ýmiskonar fræðslu, svo sem um hvað gerist í líkama okkar þegar við lendum í áföllum og hvaða aðferðir eru góðar til þess að lækna sjálfan sig. Tilgangurinn er að hjálpa til þannig að þú getir byrjað að blómstra og nýta hæfileika þín til fulls. Við kennum æfingar sem þú getur þjálfað þig með heima. Einnig nýtum við hugleiðslu sem er sérstaklega ætluð til þess að vinna á móti þjáningu áfallareynslunnar í líkama og huga. Tilboðið er þróað út frá nýjustu þekkingu á sviðinu.“ Nánar er hægt að kynna sér meðferðina á slóðinni salarro.is/hopmedferd.

Töframáttur samtalsins

Hins vegar býður Sálarró upp á námskeið sem er kallað Töframáttur samtalsins. „Námskeiðið er ætlað þeim sem bera ábyrgð í samskiptum, svo sem stjórnendum, kennurum eða námsráðgjöfum. Farið verður í gegn um hvernig leiða má krefjandi samtal þannig að það bjóði upp á að auka ábyrgð, samkennd, sjálfstraust og vellíðan einstaklinga eða í hópi. Þannig getur sköpun að nýjum „veruleika“ orðið til. Við uppbyggingu námskeiðsins eru nýttar aðferðir úr sálfræði til vaxtar og þorska. Nánar er hægt að kynna sér námskeiðið á slóðinni salarro.is/namskeid-2.

Sálarró mun halda áfram á þessu ári að þróa tilboð til þess að hjálpa fólki að finna jákvæðar og þroskandi leiðir til þess að lifa sem ríkustu og ánægjulegustu lífi á okkar fögru plánetu.

Fréttablaðið, dags. 20 jan. 2022, bls. 61

https://frettabladid.overcastcdn.com/documents/SD220120.pdf

Eftir Þuríði Ólafí Hjálmtýsdóttur 

Samfélag í átökum

Úrdráttur

Um þessar mundir eiga sér stað hatrömm átök í samfélaginu vegna misréttis ýmiskonar. Hvað er til ráða?

Fáir standa ósnortnir í samfélaginu í dag vegna málefna tengdum #MeToo hreyfingunni sem nú virðist stefna í átt að þjóðfélagsbyltingu. Svo og hefur myndast gjá milli þeirra bólusettu og óbólusettu. Þá hafa sóttvarnaraðgerðir reynst mörgum þungar í skauti andlega, líkamlega, félagslega og efnahagslega. Eigi eru öll kurl komin til grafar í þessum málum.

Töframáttur samtalsins

Til þess að feta veginn áfram að raunverulegu jafnræði meðal fólks og þroska virðingu og samkennd þurfum við að halda samtalinu lifandi. Vara okkur á að festast í skotgröfum. Við þurfum að leiða samtöl sem leggja áherslu á að auka ábyrgð, sjálfstraust og samkennd þeirra sem hlut að eiga. Í sálfræðinni er þekking á því hvernig þeir sem bera ábyrgð í samskiptum, svo sem stjórnendur, samfélagsrýnar og áhrifavaldar geti leitt slíkt samtal.  Við þurfum að hafa í huga að í samtalinu verður „raunveruleikinn“ til. Sú kreppa sem við stöndum frammi fyrir er jafnframt stórkostlegt tækifæri til að byggja ríkara, réttlátara og sanngjarnara samfélag öllum til hagsbóta.

Vegvísar

Vegvísar á þeirri leið geta verið að hafa í huga að samtalið er það samspil þar sem sérstakt mannlegt samband getur orðið til. Við þurfum að vera meðvituð um að það fellst áskorun í því hvernig við mætum erfiðleikum fólks og aðferðum þess til þess að takast á við lífið. Finna þarf þeim röddum sem fram koma farveg til þroska. Hlusta af eins mikilli virðingu og kostur.

Viltu vaxa eftir áföll?

Hafir þú hins vegar orðið fyrir reynslu sem jafnvel hefur þróast yfir langan tíma og einkennst af miklu viðvarandi álagi eru líkur á því að þú þjáist af áfallastreitu. Afleiðingarnar geta orðið skelfilegar fyrir heilsuna og geta jafnvel leitt til sjálfstortímingar. Þá skiptir mestu að vita að þú ert ekki fórnalamb heldur getur þú komist í tengsl við þitt innra afl og fundið eigin kraft til að læknast. Þú hefur val um tvennt: Að sjá þig sem fórnarlamb og reyna að drekkja sársaukanum í ásökunum, vinnu, fíkn, „skemmtun“ eða lyfjum eða þú getur snúið þér inn á við og einbeitt þér að eigin lækningu.

Hið góða samfélag

Hin góða leið til þess að vera saman í samfélagi felst í því að bera gagnkvæma virðingu hvert fyrir öðru sem manneskjum. Sem huglægum verum með sinn innri heim, eigin vilja og eigin sjónarmið. Til þess að öðlast gott samfélag þurfum við að gera okkur grein fyrir ábyrgð okkar gagnvart hvort öðu, bera virðingu fyrir okkur sjálfum og hvort öðru og hlúa að okkur sjálfum og hvort öðru.  Við þurfum að ná tengslum við okkar innri visku og tilfinningagreind. Við þurfum að þroska samskiptahæfni okkar og þola og meta að verðleikum mannlegan fjölbreytileika.

Morgunblaðið dags. 10 febrúar 2022.

https://www.mbl.is/mogginn/bladid/innskraning/?redirect=%2Fmogginn%2Fbladid%2Fgrein%2F1799794%2F%3Ft%3D761535252&page_name=grein&grein_id=1799794

Dags. 27 júlí 2021. Viðtal við Þuríði á Bylgjunni – Bítið. Tími inni í vitalinu þar sem kemur að Þuríði – 2.23.15: https://www.visir.is/k/dea6d41e-f028-4ce5-b74f-caee35380589-1627380009674?fbclid=IwAR12sDUtW5Dat8txoeWJNBBsGiDXTmRuMzlw5mWCSZDh-aCxab9HP6H2U9o