Menning valdsins

Þuríður Ólafía Hjálmtýsdóttir

Fréttablaðið Fimmtudagur 3. febrúar 2022

Skilningur á lífinu og því hvað sé mikilvægt, mótast af því samfélagi sem við lifum í. Við erum þátttakendur í menningu okkar frá vöggu til grafar. Við berum með okkur þá menningu sem við erum innlimuð í og hugsum og bregðumst við í samræmi við hana. Við erum þó ekki endilega meðvituð um hana. Í heiminum í dag er hlutgerving á fólki rík. Fólk horfir í ríkum mæli á hvert annað utan frá, sem aðskilið hvert frá öðru. Þetta veldur tengslaleysi sem leiðir til einmanaleika og minni hluttekningar manna á milli. Konur hafa ekki farið varhluta af þessu. Þær eru skoðaðar utan frá, sem hlutir og „fegurð“ þeirra talin skipta miklu. Fegurð kvenna í vestrænum samfélögum er álitin felast í því að þær séu ungar, grannar og með stinn brjóst. Slík er staðalímynd hinnar fullkomnu konu og því betur sem hún uppfyllir þessa ímynd, því flottari er hún talin og hamingjusamari. Öll viljum við vera vel heppnuð, flott og hamingjusöm.

Á bak við þetta áhorf á konur liggja gífurlega sterk og grimm öfl markaðarins og feðraveldisins. Fjármálaleg öfl, þar sem fjöldi manns hefur atvinnu af því að halda á lofti þessari ímynd og fyrirtæki stórgræða. Þá burðast feðraveldið með vald sem enginn ræður við, því valdið spillir. Valdið sem slíkt getur orsakað ótta og sársauka hver sem á heldur. Sársauka, ekki einungis hjá þeim sem fyrir verður, heldur einnig þeim sem á heldur. Sannast margkveðin vísa undanfarinnar tíðar: „Við erum saman í þessu.“

Hvernig getum við byggt upp samfélag sem er vinsamlegra þeim lífrænu, mannlegu verum sem við erum? Hvernig samfélag viljum við byggja, þannig að við þurfum ekki að auka þjáninguna á vegferð okkar um lífið?

Heimur okkar allra er að hluta til tengdur og að hluta til aðskilinn. Ekkert okkar getur unnið að því sem við höldum okkar hagsmuni, á hverjum tíma, án tengsla við hina sem í samfélaginu búa. Þannig verður sú/sá sem fyrir valdinu verður og sú/sá sem beitir því, fremur tengd en aðskilin. Allt samfélagið verður fyrir áhrifum. Vandinn er samfélagslegs eðlis vegna viðhorfa í menningu okkar, en síður bundinn við þá einstaklinga sem hlut eiga að máli. Við sem byggjum þessa jörð berum ábyrgð á því mannlífi sem hér blómstrar, eða þeirri þjáningu sem verður.

Þuríður Ólafía Hjálmtýsdóttir
Scroll to Top