Samfélag í átökum
Eftir Þuríði Ólafí Hjálmtýsdóttur
Morgunblaðið dags. 10 febrúar 2022.
Um þessar mundir eiga sér stað hatrömm átök í samfélaginu vegna misréttis ýmiskonar. Hvað er til ráða?
Fáir standa ósnortnir í samfélaginu í dag vegna málefna tengdum #MeToo hreyfingunni sem nú virðist stefna í átt að þjóðfélagsbyltingu. Svo og hefur myndast gjá milli þeirra bólusettu og óbólusettu. Þá hafa sóttvarnaraðgerðir reynst mörgum þungar í skauti andlega, líkamlega, félagslega og efnahagslega. Eigi eru öll kurl komin til grafar í þessum málum.
Töframáttur samtalsins
Til þess að feta veginn áfram að raunverulegu jafnræði meðal fólks og þroska virðingu og samkennd þurfum við að halda samtalinu lifandi. Vara okkur á að festast í skotgröfum. Við þurfum að leiða samtöl sem leggja áherslu á að auka ábyrgð, sjálfstraust og samkennd þeirra sem hlut að eiga. Í sálfræðinni er þekking á því hvernig þeir sem bera ábyrgð í samskiptum, svo sem stjórnendur, samfélagsrýnar og áhrifavaldar geti leitt slíkt samtal. Við þurfum að hafa í huga að í samtalinu verður „raunveruleikinn“ til. Sú kreppa sem við stöndum frammi fyrir er jafnframt stórkostlegt tækifæri til að byggja ríkara, réttlátara og sanngjarnara samfélag öllum til hagsbóta.
Vegvísar
Vegvísar á þeirri leið geta verið að hafa í huga að samtalið er það samspil þar sem sérstakt mannlegt samband getur orðið til. Við þurfum að vera meðvituð um að það fellst áskorun í því hvernig við mætum erfiðleikum fólks og aðferðum þess til þess að takast á við lífið. Finna þarf þeim röddum sem fram koma farveg til þroska. Hlusta af eins mikilli virðingu og kostur.
Viltu vaxa eftir áföll?
Hafir þú hins vegar orðið fyrir reynslu sem jafnvel hefur þróast yfir langan tíma og einkennst af miklu viðvarandi álagi eru líkur á því að þú þjáist af áfallastreitu. Afleiðingarnar geta orðið skelfilegar fyrir heilsuna og geta jafnvel leitt til sjálfstortímingar. Þá skiptir mestu að vita að þú ert ekki fórnalamb heldur getur þú komist í tengsl við þitt innra afl og fundið eigin kraft til að læknast. Þú hefur val um tvennt: Að sjá þig sem fórnarlamb og reyna að drekkja sársaukanum í ásökunum, vinnu, fíkn, „skemmtun“ eða lyfjum eða þú getur snúið þér inn á við og einbeitt þér að eigin lækningu.
Hið góða samfélag
Hin góða leið til þess að vera saman í samfélagi felst í því að bera gagnkvæma virðingu hvert fyrir öðru sem manneskjum. Sem huglægum verum með sinn innri heim, eigin vilja og eigin sjónarmið. Til þess að öðlast gott samfélag þurfum við að gera okkur grein fyrir ábyrgð okkar gagnvart hvort öðu, bera virðingu fyrir okkur sjálfum og hvort öðru og hlúa að okkur sjálfum og hvort öðru. Við þurfum að ná tengslum við okkar innri visku og tilfinningagreind. Við þurfum að þroska samskiptahæfni okkar og þola og meta að verðleikum mannlegan fjölbreytileika.