Hefur þú upplifað gaslýsingu í nánu sambandi?

Hefur þú upplifað gaslýsingu í nánu sambandi?

Fallega sál…

Hefur þú upplifað gaslýsingu í nánu sambandi?

Ef svo er þá veistu hversu raunveruleikaskyn þitt brengslast þar til þú veist ekki lengur hver þú ert. Þá veistu hversu stórhættuleg slík reynsla er. Eins og svarthol sem þú dregst ofan í, sem sýgur frá þér og ruglar orku þína, eyðileggur gæsku þína, lífsaft þitt og sál.

Gaslýsing er skelfilegt ofbeldi þar sem sú – sá sem beitir ofbeldinu skapar aðstæður sem valda því að þú ferð að trúa því að þú hafir rangt fyrir þér, þú ferð að efast um hvað sé rétt eða rangt og þér fer að finnast að það sé eitthvað mikið að þér. Með tímanum getur þú farið að efast um geðheilbrigði þitt. Algeng skilaboð geta verið „þú misskilur mig“, „þú heyrðir ekki hvað ég sagði“, „þú heyrðir það sem þú vildir heyra“, „þú lést mig segja/gera þetta“. Skilaboðin eru að alveg sama hvað þú segir eða gerir hafir þú alltaf rangt fyrir þér og sért vond(ur) að láta þér detta í hug að eitthvað sé ekki í lagi með þann sem beitir gaslýsingu.

Sá sem notar gaslýsingu til að taka yfir annað fólk getur einnig beitt þig óbeinni stjórnun sem ekki er auðvelt að setja fingurinn á. En smátt og smátt ertu farin að reyna allt sem þú getur til að þóknast viðkomandi eða uppfylla þarfir og væntingar hans-hennar. En þú verður aldrei nógu góð(ur) alveg sama hvernig þú reynir. Ekkert er nóg eða nógu gott. Smátt og smátt missir þú rödd þína og einangrast. Þú getur veikst bæði líkamlega og andlega.

Þá er þér lífsnauðsynlegt að koma þér í burtu. Annars borgar þú sambandið dýru verði, kannski með lífi þínu.

Ekki reyna að skilja þann sem beitir gaslýsingu eða afsaka slíka hegðun, mundu að það eru ekki allir eins og þú. Ekki reyna að fá aðra til að trúa þér, ofbeldismanneskjan hefur hagað málum þannig að aðrir trúa honum – henni en ekki þér. Það skiptir ekki máli hvað öðrum finnst, bara hver þinn innri sannleikur er.

Þú þarft að leita inn á við og lækna sjálfa(n) þig. Innra með þér er allt sem þú þarft til að geta orðið sú yndislega vera sem þú fæddist til að verða. Þetta er ekki auðvelt og það tekur tíma. Sál þín og innri rödd eru afl þitt og þú þarft að virða sjálfa(n) þig. Þú þarft að taka ábyrgð á eigin lífi.

Þú getur lifað slíkar hörmungar af, læknast og þrifist sem aldrei fyrr í kjölfar þeirra.

Gaslýsing er alvarlegt mál í heiminum, bæði á persónulegu sviði sem og samfélagslegu og skapa mikinn heilbrigðisvanda.

Elsku þú … leitaðu ljóssins og gleðinnar.

Hugtakið gaslýsing er komið frá þessari kvikmynd: https://www.youtube.com/watch?v=UYmtzaHwCKo&ab_channel=TheSmokingHat

Myndband um gaslýsingu: https://www.youtube.com/watch?v=SVCqTcb4qkM&ab_channel=TatjanaAnders