Elskulega sál….
Langar þig að njóta hamingju?
Nú nálgast jólahátíðin, sú hátíð þegar þig langar til að gleðja aðra og njóta hamingju sjálf(ur). Hver er galdurinn við hamingjuna? Hvað segja andlegir meistarar?
Hafðu í huga að ekki er auðvelt að tileinka sér þessar leiðbeiningar og að það þarf að þjálfa sig, kannski alla ævi. Þetta er jú boðskapur andlegra meistara!!
Dalai Lama:
„Ef þú vilt að aðrir séu hamingjusamir, æfðu þig í að finna til samúðar. Ef þú vilt verða hamingjusöm (samur) æfðu þig í að finna til samúðar.“
Buddha kenndi átta leiðir til þess að öðlast hamingju í lífinu:
Rétt viðhorf (réttur skilningur):
Tileinkaðu þér réttan skilning á eðli raunveruleikans. Fríaðu þig frá vítahring þjáningarinnar með því að yfirgefa endalausa þrá eftir einhverju meira.
Réttur ásetningur (réttar hugsanir):
Finndu frjókorn hamingjunnar með því ásetja þér að þroska sjálfa(n) þig og ástunda siðferðilegt framferði. Í þessu tilliti eru hugsanir þínar öflugt „verkfæri“. Hugsanir þínar bera með sér mikið afl sem hefur áhrif á andlegt ástand þitt og athafnir.
Rétt tjáning – tal:
Orðin sem þú notar bera með sér afl. Orð þín og þær hugmyndir sem þau fela í sér geta breytt hugarfari og lífi. Það skiptir máli að þú notir falleg orð. Ef þú sýnir öðrum tillitssemi og góðvild stuðlar það að þinni eigin hamingju sem og þeirra.
Rétt framkoma:
Framkoma þín og athafnir hafa áhrif á huga þinn og hver þú verður. Vertu árvökul(l) á eigin þroskabraut og örðum hjálpleg(ur).
Réttur lífsstíll:
Lifðu fallegu lífi á lögmætan og friðsaman hátt.
Rétt viðleitni:
Einbeittu þér að því að öðlast góða og heilnæma tilveru.
Rétt staðfesta:
Ástundaðu andlega ögun til þess að öðlast innri frið og djúpa hamingju.
Eigðu dásamlega jólahátíð yndislega sál….